Félagsráðgjöf og vinna með flóttamönnum

Frá því að félagsráðgjöf varð sérfræðigrein hafa málefni innflytjenda verið tengd greininni.  Í kringum aldamótin 1900 lögðu frumkvöðlar í félagsráðgjöf grunninn að ötulu starfi, sem einkenndist bæði af virðingu fyrir margbreytileikanum í samfélaginu og meðvitund um að huga þurfi að áhrifum víðtækra umhverfisþátta þegar unnið er með einstaklingum og fjölskyldum.  Með slíka virðingu og meðvitund að leiðarljósi hafa félagsráðgjafar í áratugi unnið með innflytjendum og verið málsvari þeirra í réttindamálum.

Á sl. 10 -15 árum hefur fólki af erlendum uppruna fjölgað ört hér á landi og margvíslegar breytingar eiga sér stað í íslensku samfélagi. Fjölgun innflytjenda hefur þýtt áskorun fyrir margar fagstéttir, þ.á.m. félagsráðgjafa og hefur á sl. árum áunnist mikil reynsla og sérþekking á meðal félagsráðgjafa í velferðar- og heilbrigðisþjónustu hér á landi ásamt því að nú er kennd fjölmenningarleg félagsráðgjöf í félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands.  Talað er gjarnan um mismunandi hópa innflytjenda þegar rætt er um innflytjendur, þ.e. farandverkamenn, flóttamenn og hælisleitendur. Félagsráðgjafar hafa skapað sér reynslu í að vinna með öllum þessum hópum innflytjenda og slík reynsla hefur leitt til sérþekkingar í félagsráðgjöf við innflytjendur, m.a. við flóttamenn og hælisleitendur.   


Félagsráðgjafar sem vinna skv. fjölmenningarlegri félagsráðgjöf leggja höfuðáherslu  á virðingu fyrir upprunamenningu og að skapa innflytjendum skilyrði til þess rækta sína menningu. Jafnframt taka þeir tillit til aðstæðna einstaklingsins.  Markmið fjölmenningarlegrar félagsráðgjafar er að vinna með innflytjendum og aðstoða þá við að verða virkir þáttakendur í íslensku samfélagi. Eitt af höfuðmarkmiðum fjölmenningarlegrar félagsráðgjafar er jafnframt að stuðla að gagnkvæmri aðlögun á milli ríkjandi samfélags og innflytjenda. Í gagnkvæmri aðlögun eru ríki og almenningur samtaka í því að skapa samfélag sem mætir þörfum allra sem í samfélaginu búa. 

Það er athyglisvert að einungis frá árinu 1996 hefur móttaka flóttamanna  á Íslandi verið samstarf á milli  stjórnvalda, Rauða kross Íslands og móttökusveitarfélags hverju sinni.  Sveitarfélögin og félagsþjónustur sveitarfélaga hafa því einungis frá  árinu 1996 verið þátttakendur í að veita flóttamönnum velferðarþjónustu. Alls hafa þetta verið tíu sveitarfélög sem félags-og tryggingarmálaráðuneytið hefur gert samkomulag við.  Það er umhugsunarvert að á þessum tólf  árum hefur sú þekking og reynsla félagsráðgjafa og annarra sem hafa unnið með flóttamönnum hverju sinni ekki skilað sér með formlegum hætti á milli sveitarfélaganna.

Reykjavíkurborg var í fyrsta skipti aðili að samstarfi við félags-og tryggingarmálaráðuneytið árið 2005 þegar borgin tók á móti 24 flóttakonum og börnum frá Kólumbíu og sjö manna fjölskyldu frá Króatíu. Reykjavíkurborg tók aftur á móti flóttamönnum árið 2007 en þá komu 30 konur og börn frá Kólumbíu. Það var í fyrsta skipti sem sama móttökusveitarfélagið tók á móti tveimur hópum í röð.  Í bæði skiptin var það Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í Reykjavík  sem veitti flóttakonunum og börnum þeirra þá velferðarþjónstu sem þurfti, en þjónustumiðstöðin er þekkingarstöð í fjölmenningu og margbreytileika. Félagsráðgjafar á þjónustumiðstöðinni voru þar í  lykilhlutverki. Á þjónustumiðstöðinni starfar starfsfólk sem er sérhæft í málefnum innflytjenda,  m.a. félagsráðgjafar, sálfræðingar, kennsluráðgjafar, frístundaráðgjafar o.fl.  Hlutverk stöðvarinnar er að veita þverfaglega og samræmda þjónustu til íbúa í Miðborg og Hlíðum og faglega þjónustu til stofnana og félagasamtaka í hverfunum. 


Í báðum tilvikunum sem Reykjavíkurborg tók á móti hópunum frá Kólumbíu var um að ræða flóttakonur og börn frá Kólumbíu sem sest höfðu að í Ekvador eða Kosta Ríka og fengið þar stöðu sem Konur í hættu (Women at risk). Konur í hættu fá þær konur og börn í heiminum sem eru á flótta og búa á miklum hættusvæðum. Það er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðaanna sem gefur þeim slíka skilgreiningu. Konur  á þessum skilgreindu hættusvæðum verða fyrir kynbundnu ofbeldi og ofsóknum sem felur m.a. í sér líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi frá samfélaginu og jafnvel innan fjölskyldunnar. Kúgun, barsmíðar og ofbeldi tengt menningarviðhorfum, nauðganir, limlestingar á kynfærum og mansal eru nokkur dæmi um það ofbeldi sem konur á þessum hættusvæðum eru beittar.

Í mótttökuþjónustu við flóttakonur þarf að vera til staðar meðvitund um þarfir flóttakvenna. Þrátt fyrir að flutningur til annars lands tryggi vernd flóttakvenna gegn ofbeldi og fátækt þá geta áhættuþættir enn verið til staðar ef velferðarþjónustan í landinu sem þær flytjast til er ekki í stakk búin til að mæta þörfum þeirra fyrir öryggi og sjálfsstæði. Ef velferðarþjónusta, stuðningsnet og möguleikinn á því að læra tungumálið í nýja landinu er ekki aðgengilegt og sniðið að þörfum flóttakvennanna er hætta á því að konurnar einangrist og festist í neti fátæktar . Þetta hafa rannsóknir m.a. sýnt.  Rannsóknir hafa einnig sýnt að huga þurfi sérstaklega að líkamlegri og andlegri  heilsu flóttakvenna, en líkamleg heilsa þeirra er oft verri en flóttakarla vegna þess ofbeldis sem þær hafa þurft að þola. Flóttakonur þjást einnig af   áfallastreitu og finna oft fyrir tilfinningalegum, menningarlegum og félagslegum missi þar sem langflestar þeirra hafa upplifað það að missa einhvern sem þeim þykir vænt um.

Það hefur verið reynsla félagsráðgjafanna sem unnu með Kólumbísku flóttakonunum og börnum þeirra að sú félags- og efnahagslegs staða sem flóttkonurnar finna sig í hér er yfirleitt önnur en sú sem þær  höfðu í upprunalandi sínu. Konurnar hafa þurft að takast á við ný hlutverk sem felst m.a. í því að fara út á vinnumarkaðinn og sjá þannig fyrir börnunum sínum og heimili. Þær hafa þurft töluverða þjálfun og fræðslu til að takast á við ný hlutverk. Það er því mikilvægt að öll velferðar- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er flóttakonum sé hvorki einsleit né kynblind og taki mið af þörfum flóttakvenna og börnum þeirra.

Ég hef  í minni vinnu nálgast alla ráðgjöf og stuðning við konurnar frá sjónarmiði fjölmenningarlegrar félagsráðgjafar.  Til að auðvelda mér mat á aðstæðum þeirra og reynslu hef ég m.a. notast við  fjölskyldukort (geogram) og menningarnet (Skytte 2007).  Notkun menningarnets gerir félagsráðgjöfum sem vinna með innflytjendum kleift að  huga að öllum áhrifaþáttum aðlögunarferlisins og jafnframt meta reynslu í upprunalandi.  Menntun,  starfsmöguleikar, atvinnusaga, tengslanet, félagsleg staða, heilsufar og reynsla tengd flóttanum eru allt þættir sem félagsráðgjafar þurfa að hafa í huga í vinnu með flóttamönnum. Einnig er mikilvægt að taka tillit til persónulegra þátta hvers og eins og þar spila  efnahagsstétt, menning, fjölskyldumenning, trúarbrögð og persónuleg reynsla inn í. Menningarnetið leggur áherslu á hvern einstakling í tiltekinni fjölskyldu með ákveðin menningareinkenni. Þótt menningin sé yfirskriftin þá eru það einstaklingsbundnu þættirnir innan hennar sem fá aðalvægið. Félagráðgjafar geta þannig með notkun menningarnetsins metið aðstæður einstaklingsins og svo unnið áfram með einstaklingnum út frá upplifun og skilning hans sjálfs.  Í vinnu minni með flóttakonum hef ég fylgst með líðan þeirra. Einkenni áfallastreitu eins og kvíði, reiði og þreyta hafa gert vart við sig en slíkar tilfinningar eru líka hluti af aðlögunarferlinu. Konurnar hafa nýtt sér misvel þá sálfræðiþjónustu sem þeim hefur staðið til boða en þær hafa hinsvegar mætt reglulega í viðtöl til félagsráðgjafanna sem bendir til þess að fyrir sumar henta regluleg félagsleg ráðgjöf betur en sálfræðimeðferð. Brýnt er þó að flóttakonur hafi aðgang að mismunandi stuðningi til að takast á við líðan sína, t.d. eins og lausnamiðaða fræðslu og hópavinnu samhliða félagslegri ráðgjöf þar sem konurnar fá hvatningu og stuðning til sjálfshjálpar sem og upplýsingar um réttindi sín og félagsleg úrræði, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu. Þetta gæti verið leið til þess að móta bjargir fyrir konurnar í daglega lífi þeirra til þess að takast á við tilfinningar sínar og upplifanir fyrstu árin eftir flutninginn. En allur stuðningur krefst að sjálfsögðu meðvitund á meðal fagfólks um aðstæður flóttafólks og andlegra einkenna áfallastreitu.

Huga þarf að félagslegum tengslum þeim sem flóttakonur höfðu í heimalandi og aðstoða konurnar við að byggja upp félagslegt net. Þar gegna stuðningsfjölskyldur á vegum Rauða Krossins mikilvægu hlutverki. Það hefur sýnt sig að þær flóttakonur sem hafa viðhaldið tengslum við stuðningsfjölskyldurnar hefur vegnað vel félagslega Félagsráðgjafar sem vinna með flóttafólki þurfa einnig að huga að  samskiptum við aðrar stofnanir, menningarmuni á dvalar- og upprunalandi og vera meðvitaðir um samfélagsþætti hér á landi sem hafa áhrif á persónulega stöðu flóttafólks hér.

Það er mikilvægt fyrir félagsráðgjafa sem vinna með flóttakonum að vera meðvitaðir um eigin viðhorf og gildi og sýni þeim skilning. Sýna þarf virðingu fyrir menningararfleið og ræða opinskátt um menningaruppruna og upplifun flóttakvennanna þeirra á menningarmuninum á uppruna- og dvalarlandi. Valdeflingarnálgun (empowering approach) er mikilvæg í þessu samhengi þvi hún felur í sér að félagsráðgjafinn vinnur að því að styðja flóttakonurnar í að finna leiðir og þróa eigin bjargir sem þær geta nýtt sér.

Ljóst er að stuðningur og þjónusta við flóttakonur er nauðsynlegur þáttur í aðlögunarferlinu. Bjargir þurfa að vera sýnilegar, aðgengilegar og sniðnar að þörfum þeirra ásamt því að leiða til þess að skerpa á meðvitund almennings gagnvart málaflokknum. Enda er gagnkvæm aðlögun frumskilyrði þess að hægt sé að tryggja flóttakonum og börnum þeirra eftirsóknaverð lífsskilyrði.

Sú reynsla og þekking sem áunnist hefur á meðal félagsráðgjafanna og annars starfsfólks á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, og  meðal fagfólks í grunnskólum og leikskólum barna flóttakvennanna er mikilvæg í þessu samhengi og mikilvægt að henni sé miðlað áfram á skilvirkan hátt. Því ekki mun hún eingöngu nýtast öðrum sem ætla sér að vinna með flóttamönnum heldur einnig þeim sem vinna með innflytjendum almennt.


Hvernig er hinsegin Ísland í dag?

Erindi sem ég flutti á málþingi í Öskju N-132.  föstudaginn 22. febrúar sl. Yfirskrift málþingsins var "Hvernig má efla velferð stjúpfjölskyldna?" 

 

Þegar ég var beðin um að fjalla um stjúptengsl frá sjónarhorni homma og lesbía fór ég að velta fyrir mér á hvern hátt og hvort hinsegin stjúpfjölskyldur upplifðu sig öðruvísi en gagnkynhneigðar stjúpfjölskyldur.

Margir myndu ætla að eftir að lögum um ættleiðingar og tæknifrjóvganir var breytt árið 2006 þá nytu samkynhneigðar fjölskyldur algjörlega sömu félagslegra réttinda og gagnkynhneigðar fjölskyldur. Félagsleg staða þeirra í samfélaginu væri loksins jöfn.

Sambönd samkynhneigðra para njóta allra sömu réttinda og gagnkynhneigðra para. Þau geta gengið í staðfesta samvist, þau geta skráð sambúð sína í þjóðskrá og þau geta frá árinu 2006 eignast börn með tæknifrjóvgun. Samkynhneigðir hafa getað stjúpættleitt börn maka sinna frá árinu 2000. Markmiði samkynheigðra foreldra fyrir því að fjölskyldumunstur þeirra sé viðurkennt í samfélaginu hefur því verið náð myndu flestir ætla.

Það eru tvennskonar fjölskylduform sem aðallega eiga við um samkynhneigða foreldra í okkar samfélagi.  Annars vegar er um að ræða foreldra sem hafa átt börn áður en ferðalagið “út úr skápnum” hófst. 

Hinsvegar foreldra sem hafa átt börn með samkynhneigðum maka gegn um tæknifróvgun eða gjafasæði. Seinni hópurinn er nýtt fyrirbæri og búast má við því að í honum eigi eftir að fjölga ört næstu árin. Ef til vill munum við sjá hér “gay baby boom” eins og hefur gerst í öðrum löndum þar sem samkynhneigðir njóta sambærilegra réttinda til barneigna.

Fyrri hópurinn er í dag mun fjölmennari. Flest af börnum þessa hóps búa hjá öðru hvoru kynforeldri sínu og eiga samkynhneigt og/eða gagnkynhneigt stjúpforeldri. Flókið ekki satt!

Sú sem hér talar tilheyrir þessum hóp. Það er að segja ég er í sambúð með konu sem á tvö börn. Við erum ekkert frábrugðin öðrum samsettum fjölskyldum og höfum gengið í gegnum súrt og sætt eins og aðrar stjúpfjölskyldur. Konan mín var skilin við föður barnanna og kominn út úr skápnum nokkrum árum áður en við tókum saman, þannig að kynhneigðardæmið var ekki “vandamál” hjá þeim þegar ég kom til sögunnar. Það hefur samt tekið okkur langan tíma að mynda fjölskyldu eins og algengt er með allar stjúpfjölskyldur.

Ég og konan mín erum  stoltar af því að vera samkynhneigðar og það hefur skipt miklu máli fyrir líðan barnanna. Það hefur haft þau áhrif að börnin eru  sátt enda eru þau svo lánsöm að við erum í góðu sambandi við föður þeirra og foreldrar okkar og systkini eru víðsýn og styðja okkur í hvívetna.

Þannig aðstæður eiga því miður ekki við um öll börn sem búa í hinsegin fjölskyldu. Stór hópur samkynhneigðra foreldra treystir sér ekki til þess að vera opnir gagnvart skólanum með kynhneigð sína gagngert til að vernda börnin sín.  Innri togstreita foreldra við eigin sjálfsmynd og fordómar ættingja geta haft mjög skaðleg áhrif á viðhorf barna til fjölskyldunnar og að sjálfsögðu  á þeirra eigin sjálfsmynd.  Þessum börnum líður ekki vel og þar við bætist að oft eru skilaboðin í skólaumhverfinu ekki jákvæð og styðjandi.

Stjúpsonur minn er í grunnskóla og ég hef tekið jafnan þátt og mamma hans í skólastarfinu. Maður skyldi ætla að í dag ríkti víðsýni og viðurkenning á ólíkum fjölskyldugerðum í skólakerfinu. Það hefur ekki verið mín upplifun og ég veit af eigin reynslu að það á við um fjölskyldur þar sem einhverjir eða allir fjölskyldumeðlima eru af erlendum uppruna. Um fjölskyldur samkynhneigðra er enn ekki talað að neinu ráði í skólanum.  Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég sé virt að vettugi af skólanum sem uppalandi vegna þess eins að ég er stjúpforeldri eða vegna þess að ég er samkynhneigð, eða er það sitt lítið af hvoru.

Á upplýsingablaðinu sem við konan mín fylltum út í haust þegar skólinn byrjaði var beðið um nafn foreldra annars vegar og svo forráðamanna hinsvegar og þar gáfum við upp nöfn okkar beggja. En þrátt fyrir það - ef  eitthvað vandamál kemur upp, í skólanum er hringt í mömmu hans en aldrei í mig, náist ekki í hana.  Ég sendi stundum tölvupóst til kennaranna og fæ engin svör.  Svarið berst mömmu hans! Mér líður þá eins og ég sé ekki virt né viðurkennd sem uppalandi stjúpsonar míns.

Það er ekki auðvelt að vita til þess að um okkur sem fjölskyldu ríki þögn í skólanum og að einu tilvikin sem til okkar er vísað í daglegri orðræðu sé þegar krakkarnir nota orðið “hommi eða lessa” til að niðurlægja hvort annað,  og það gerist oft því miður. Ef fjallað er um okkar fjölskyldu á jákvæðan hátt er það, í einhver örfá skipti, í lífsleikni, og þá er vísunin oftar en ekki í kynhneigð en ekki lífstíl.

Hann sagði okkur frá því um daginn að einhver hefði kallað yfir bekkinn í hefndarskyni að mamma hans væri lessa. Við spurðum hann hvað honum hefði fundist?  Hann yppti öxlum. Ég spurði þá hvort kennarinn hefði þá sagt eitthvað eða einhver í bekknum? Hann svaraði því til að engin hefði yfirhöfuð sagt neitt.

Þegar ég var að undirbúa mig undir þetta erindi þá sló ég inn á “google”… samkynhneigðir stjúpforeldrar.  Það komu upp örfáar síður þar sem fjallað var um stjúpforeldra en “google” fann ekkert á íslensku um hinsegin stjúpfjölskyldur.  Þá prófaði ég þá hugtakið á ensku og fékk fjöldan allan af síðum þar sem vísað var í hinar ýmsu rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Mér vitandi hefur aðeins ein rannsókn verið gerð hér á landi á félagslegri stöðu og líðan barna í samkynheigðum fjölskyldum. Það eru mörg ár síðan, Þessi rannsókn var eigindleg og viðmælendahópurinn ekki stór.  Í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa verið gerðar margar rannsóknir. Það er sameiginlegt með öllum þessum rannsóknum að aðalvandi barna sem alast upp hjá samkynhneigðum er ekki kynhneigð uppalendanna,  heldur viðhorf samfélagsins til samkynhneigðar.

Niðurstaða erlendra rannsókna á börnum sem alast upp í hinsegin stjúpfjölskyldu sýna að þessi börn upplifa sömu hindranir og sömu viðhorf og börn sem alast upp í gagnkynhneigðum stjúpfjölskyldum. Hinsvegar er aðlögunarferlið mun flóknara vegna vanþekkingar og skilningleysis í starfsumhverfi þeirra. Þ.e.a.s í skólanum og á leikvellinum.

Allt þetta getur haft þau áhrif að samkynhneigðir foreldrar treysta sér ekki til þess að vera opnir með kynhneigð sína.  Í þeirri vissu að með því verndi þau börnin sín best, en um leið læra börnin að það má ekki tala um fjölskylduna þeirra og það er ekki gott að alast upp við skömm á sinni eigin fjölskyldu og jafnvel stjúpforeldri sínu!

Þetta er raunveruleikinn hjá samkynhneigðum stjúpfjölskyldum.

Þetta er:  hinsegin Ísland í dag.


Elskulega hjólið mitt

Ég hef tekið upp á því að fara allra minna ferða á yndislega hjólinu
mínu sem ég keypti i London á sínum tíma. Þetta er liður í að verða
umhverfisvænni manneskja og  til að vera í meiri tengingu við
líkamann enda vinn ég þannig vinnu að ég er oft andlega þreytt eftir
vinnudaginn.  Eg hef verið hjálmlaus til þessa enda er ég ein af
þeim sem finnst púkó að vera með hjálm. En nú er ég búin að finna rétta
hjálminn. Keypti hann á Hverfisgötunni. Hjálmurinn er svona
silfurlitaður stríðsára hjálmur. Ég er hæstánægð með hann. Hann er
glansandi eins og teketill og það er hægt að spegla sig í honum. 
Vinkona mín á einn alveg eins og ég hef bara séð tvær aðrar manneskjur
með svona hjálm.  Það eru skiptar skoðanir um hjálminn. Sumum
finnst hjálmurinn trúðalegur en öðrum finnst hann ógeðslega töff. Næsta
skref er að skrifa undir hjóla akstursamning í vinnunni og svo ætla ég
að fjárfesta í vetrardekkjum.  Svo er aldrei að vita nema ég
fjárfesti í glansgalla í stíl við hjálminn. Þá er ég orðin góð.

Hvað er í gangi?

Ég fékk aumingjahroll dauðans i gær þegar ég hlustaði á  Vilhjálm í kastljósi. Aumingja karlinn Crying
En hvað er gangi hjá stjórn Landsambands kvenna í Frjálslynda flokkinum? Ninja Grrrrrrr Devil 


Marmaris

Eg er buın ad vera ı frıı med sambylıskonunnı a Marmarıs ı naer tvaer vıkur. Nu eru tveır dagar ı heımfor. Her er rumlega 40 stıga hıtı og svıtınn lekur af mannı. Flestır ferdamennırnır her eru enskır og vırdast adallega hıngad komnır tıl ad upplıfa sına eıgın mennıngu og tyrkırnır koma tıl mots vıd thessar tharfır englendınganna.  Tad hefur reynst erfıtt fyrır okkur ad fınna veıtıngarstad sem bydur upp a eıtthvad annad en enskan matsedıl og lıtıd kryddadan kebab.  Enskar blondınur ı g-strengjum og skollottır bjorbumbukallar ı stuttbuxum med enska fananum eru meırıhlutı ferdamanna ı Marmarıs. A kvoldın ma sja tıpsy blondınur med smaborn a borunum.  Eg hef thvı reynt ad fara ı skodanaferdır utan Marmarıs tıl ad sja eınhverja tyrkneska mennıngu. Thad hefur verıd mjog gaman og gefandı. Hef fylgst med spennunnı ı krıngum kostnıngarnar sem fram fara 22.julı og raett mıkıd vıd tyrkına sem her vınna  a veıtıngarstodunum. Tyrkırnır  vırdast almennt ahyggjufullır um urslıt kosnınganna. Theır eru hraeddır um ad Abdulla forsetaframbjodandı ıslamska flokksıns naı forsetakjorı og her verdı afturhvarf tıl truarınnar og ıhaldsemı. Laet thetta naegja ad sınnı. Best ad skella ser ut i hıtann og bresku mennınguna.


Að misnota kerfið

Nú um helgina kom fram í fréttum að stór hluti þeirra sem  hefðu verið uppvísir að bótasvikum hjá Tryggingarstofnun væru einstæðir foreldrar. Þar er líklega verið að tala um þau einstæðu foreldri sem skráð eru einstæð þótt hitt foreldrið búi á heimilinu. Hitt foreldrið er þá með lögheimili annars staðar.  Með hverju barni fær einstætt foreldri sem er öryrki um tæpar 40.000 kr. (meðlag og barnalífeyrir) og svo heimilisuppbótina, ca. 19.000 kr. tæpar á mánuði þar sem það býr eitt (ekki annar fullorðinn á heimilinu) Tekjur til umráða eru því mun meiri en ef hitt foreldrið byggi á heimilinu.   Á meðal fagfólks sem starfar í félagsmálageiranum eru foreldrarnir sem ekki búa en búa samt á heimilinu þekktir sem "hulduforeldrar".  Það er alltaf eitthvað af fólki sem misnotar kerfið. Fólk reynir að  hafa meira upp úr fátæktinni með þvi að græja aðstæðurnar á pappírnum. Þetta er sjálfsbjargarviðleitni. Fólk neyðist til að spila á kerfið til að eiga ofan í sig og á. Árni Johnsen sveik út milljónirnar en hann gerði það ekki út frá efnahagslegri neyð heldur græðgi, auðugur maðurinn.  Og svo kaus fólkið hann á þing.  Hvað finnst okkur um þessa einstæðu foreldra sem sviku út bætur?  Eigum við að dæma þau?

Hvar eiga vondir að vera

Það er nú meira fárið í íbúunum á Njálsgötu yfir nýja heimilinu fyrir heimilislausa sem Reykjavíkurborg ætlar að opna á Njálsgötunni. Þarna verða búsettir heimilislausir menn í neyslu. Ef ekki í miðbænum hvar eiga þeir þá að vera? Í Grafarvogi eða Hraunbæ? Miðbærinn eins og allir aðrir miðbæjir í borgum úti í heimi einkennist af margbreytileika. Þar er alls konar fólk og þar með talið heimilislaust fólk sem á við áfengis eða fíkniefnavanda að stríða og eða geðrænan vanda.   Miðbærinn er þeirra staður og hefur alltaf verið. Því verður ekki breytt.  Vilji fólk rólegra umhverfi þá þarf það að búa annars staðar en í miðbænum. 



“One stop shop” fyrir innflytjendur

Áhugaverð hugmynd fyrir innflytjendur.

http://www.grazyna.blog.is/blog/grazyna/

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband