Félagsráðgjöf og vinna með flóttamönnum

Frá því að félagsráðgjöf varð sérfræðigrein hafa málefni innflytjenda verið tengd greininni.  Í kringum aldamótin 1900 lögðu frumkvöðlar í félagsráðgjöf grunninn að ötulu starfi, sem einkenndist bæði af virðingu fyrir margbreytileikanum í samfélaginu og meðvitund um að huga þurfi að áhrifum víðtækra umhverfisþátta þegar unnið er með einstaklingum og fjölskyldum.  Með slíka virðingu og meðvitund að leiðarljósi hafa félagsráðgjafar í áratugi unnið með innflytjendum og verið málsvari þeirra í réttindamálum.

Á sl. 10 -15 árum hefur fólki af erlendum uppruna fjölgað ört hér á landi og margvíslegar breytingar eiga sér stað í íslensku samfélagi. Fjölgun innflytjenda hefur þýtt áskorun fyrir margar fagstéttir, þ.á.m. félagsráðgjafa og hefur á sl. árum áunnist mikil reynsla og sérþekking á meðal félagsráðgjafa í velferðar- og heilbrigðisþjónustu hér á landi ásamt því að nú er kennd fjölmenningarleg félagsráðgjöf í félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands.  Talað er gjarnan um mismunandi hópa innflytjenda þegar rætt er um innflytjendur, þ.e. farandverkamenn, flóttamenn og hælisleitendur. Félagsráðgjafar hafa skapað sér reynslu í að vinna með öllum þessum hópum innflytjenda og slík reynsla hefur leitt til sérþekkingar í félagsráðgjöf við innflytjendur, m.a. við flóttamenn og hælisleitendur.   


Félagsráðgjafar sem vinna skv. fjölmenningarlegri félagsráðgjöf leggja höfuðáherslu  á virðingu fyrir upprunamenningu og að skapa innflytjendum skilyrði til þess rækta sína menningu. Jafnframt taka þeir tillit til aðstæðna einstaklingsins.  Markmið fjölmenningarlegrar félagsráðgjafar er að vinna með innflytjendum og aðstoða þá við að verða virkir þáttakendur í íslensku samfélagi. Eitt af höfuðmarkmiðum fjölmenningarlegrar félagsráðgjafar er jafnframt að stuðla að gagnkvæmri aðlögun á milli ríkjandi samfélags og innflytjenda. Í gagnkvæmri aðlögun eru ríki og almenningur samtaka í því að skapa samfélag sem mætir þörfum allra sem í samfélaginu búa. 

Það er athyglisvert að einungis frá árinu 1996 hefur móttaka flóttamanna  á Íslandi verið samstarf á milli  stjórnvalda, Rauða kross Íslands og móttökusveitarfélags hverju sinni.  Sveitarfélögin og félagsþjónustur sveitarfélaga hafa því einungis frá  árinu 1996 verið þátttakendur í að veita flóttamönnum velferðarþjónustu. Alls hafa þetta verið tíu sveitarfélög sem félags-og tryggingarmálaráðuneytið hefur gert samkomulag við.  Það er umhugsunarvert að á þessum tólf  árum hefur sú þekking og reynsla félagsráðgjafa og annarra sem hafa unnið með flóttamönnum hverju sinni ekki skilað sér með formlegum hætti á milli sveitarfélaganna.

Reykjavíkurborg var í fyrsta skipti aðili að samstarfi við félags-og tryggingarmálaráðuneytið árið 2005 þegar borgin tók á móti 24 flóttakonum og börnum frá Kólumbíu og sjö manna fjölskyldu frá Króatíu. Reykjavíkurborg tók aftur á móti flóttamönnum árið 2007 en þá komu 30 konur og börn frá Kólumbíu. Það var í fyrsta skipti sem sama móttökusveitarfélagið tók á móti tveimur hópum í röð.  Í bæði skiptin var það Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í Reykjavík  sem veitti flóttakonunum og börnum þeirra þá velferðarþjónstu sem þurfti, en þjónustumiðstöðin er þekkingarstöð í fjölmenningu og margbreytileika. Félagsráðgjafar á þjónustumiðstöðinni voru þar í  lykilhlutverki. Á þjónustumiðstöðinni starfar starfsfólk sem er sérhæft í málefnum innflytjenda,  m.a. félagsráðgjafar, sálfræðingar, kennsluráðgjafar, frístundaráðgjafar o.fl.  Hlutverk stöðvarinnar er að veita þverfaglega og samræmda þjónustu til íbúa í Miðborg og Hlíðum og faglega þjónustu til stofnana og félagasamtaka í hverfunum. 


Í báðum tilvikunum sem Reykjavíkurborg tók á móti hópunum frá Kólumbíu var um að ræða flóttakonur og börn frá Kólumbíu sem sest höfðu að í Ekvador eða Kosta Ríka og fengið þar stöðu sem Konur í hættu (Women at risk). Konur í hættu fá þær konur og börn í heiminum sem eru á flótta og búa á miklum hættusvæðum. Það er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðaanna sem gefur þeim slíka skilgreiningu. Konur  á þessum skilgreindu hættusvæðum verða fyrir kynbundnu ofbeldi og ofsóknum sem felur m.a. í sér líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi frá samfélaginu og jafnvel innan fjölskyldunnar. Kúgun, barsmíðar og ofbeldi tengt menningarviðhorfum, nauðganir, limlestingar á kynfærum og mansal eru nokkur dæmi um það ofbeldi sem konur á þessum hættusvæðum eru beittar.

Í mótttökuþjónustu við flóttakonur þarf að vera til staðar meðvitund um þarfir flóttakvenna. Þrátt fyrir að flutningur til annars lands tryggi vernd flóttakvenna gegn ofbeldi og fátækt þá geta áhættuþættir enn verið til staðar ef velferðarþjónustan í landinu sem þær flytjast til er ekki í stakk búin til að mæta þörfum þeirra fyrir öryggi og sjálfsstæði. Ef velferðarþjónusta, stuðningsnet og möguleikinn á því að læra tungumálið í nýja landinu er ekki aðgengilegt og sniðið að þörfum flóttakvennanna er hætta á því að konurnar einangrist og festist í neti fátæktar . Þetta hafa rannsóknir m.a. sýnt.  Rannsóknir hafa einnig sýnt að huga þurfi sérstaklega að líkamlegri og andlegri  heilsu flóttakvenna, en líkamleg heilsa þeirra er oft verri en flóttakarla vegna þess ofbeldis sem þær hafa þurft að þola. Flóttakonur þjást einnig af   áfallastreitu og finna oft fyrir tilfinningalegum, menningarlegum og félagslegum missi þar sem langflestar þeirra hafa upplifað það að missa einhvern sem þeim þykir vænt um.

Það hefur verið reynsla félagsráðgjafanna sem unnu með Kólumbísku flóttakonunum og börnum þeirra að sú félags- og efnahagslegs staða sem flóttkonurnar finna sig í hér er yfirleitt önnur en sú sem þær  höfðu í upprunalandi sínu. Konurnar hafa þurft að takast á við ný hlutverk sem felst m.a. í því að fara út á vinnumarkaðinn og sjá þannig fyrir börnunum sínum og heimili. Þær hafa þurft töluverða þjálfun og fræðslu til að takast á við ný hlutverk. Það er því mikilvægt að öll velferðar- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er flóttakonum sé hvorki einsleit né kynblind og taki mið af þörfum flóttakvenna og börnum þeirra.

Ég hef  í minni vinnu nálgast alla ráðgjöf og stuðning við konurnar frá sjónarmiði fjölmenningarlegrar félagsráðgjafar.  Til að auðvelda mér mat á aðstæðum þeirra og reynslu hef ég m.a. notast við  fjölskyldukort (geogram) og menningarnet (Skytte 2007).  Notkun menningarnets gerir félagsráðgjöfum sem vinna með innflytjendum kleift að  huga að öllum áhrifaþáttum aðlögunarferlisins og jafnframt meta reynslu í upprunalandi.  Menntun,  starfsmöguleikar, atvinnusaga, tengslanet, félagsleg staða, heilsufar og reynsla tengd flóttanum eru allt þættir sem félagsráðgjafar þurfa að hafa í huga í vinnu með flóttamönnum. Einnig er mikilvægt að taka tillit til persónulegra þátta hvers og eins og þar spila  efnahagsstétt, menning, fjölskyldumenning, trúarbrögð og persónuleg reynsla inn í. Menningarnetið leggur áherslu á hvern einstakling í tiltekinni fjölskyldu með ákveðin menningareinkenni. Þótt menningin sé yfirskriftin þá eru það einstaklingsbundnu þættirnir innan hennar sem fá aðalvægið. Félagráðgjafar geta þannig með notkun menningarnetsins metið aðstæður einstaklingsins og svo unnið áfram með einstaklingnum út frá upplifun og skilning hans sjálfs.  Í vinnu minni með flóttakonum hef ég fylgst með líðan þeirra. Einkenni áfallastreitu eins og kvíði, reiði og þreyta hafa gert vart við sig en slíkar tilfinningar eru líka hluti af aðlögunarferlinu. Konurnar hafa nýtt sér misvel þá sálfræðiþjónustu sem þeim hefur staðið til boða en þær hafa hinsvegar mætt reglulega í viðtöl til félagsráðgjafanna sem bendir til þess að fyrir sumar henta regluleg félagsleg ráðgjöf betur en sálfræðimeðferð. Brýnt er þó að flóttakonur hafi aðgang að mismunandi stuðningi til að takast á við líðan sína, t.d. eins og lausnamiðaða fræðslu og hópavinnu samhliða félagslegri ráðgjöf þar sem konurnar fá hvatningu og stuðning til sjálfshjálpar sem og upplýsingar um réttindi sín og félagsleg úrræði, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu. Þetta gæti verið leið til þess að móta bjargir fyrir konurnar í daglega lífi þeirra til þess að takast á við tilfinningar sínar og upplifanir fyrstu árin eftir flutninginn. En allur stuðningur krefst að sjálfsögðu meðvitund á meðal fagfólks um aðstæður flóttafólks og andlegra einkenna áfallastreitu.

Huga þarf að félagslegum tengslum þeim sem flóttakonur höfðu í heimalandi og aðstoða konurnar við að byggja upp félagslegt net. Þar gegna stuðningsfjölskyldur á vegum Rauða Krossins mikilvægu hlutverki. Það hefur sýnt sig að þær flóttakonur sem hafa viðhaldið tengslum við stuðningsfjölskyldurnar hefur vegnað vel félagslega Félagsráðgjafar sem vinna með flóttafólki þurfa einnig að huga að  samskiptum við aðrar stofnanir, menningarmuni á dvalar- og upprunalandi og vera meðvitaðir um samfélagsþætti hér á landi sem hafa áhrif á persónulega stöðu flóttafólks hér.

Það er mikilvægt fyrir félagsráðgjafa sem vinna með flóttakonum að vera meðvitaðir um eigin viðhorf og gildi og sýni þeim skilning. Sýna þarf virðingu fyrir menningararfleið og ræða opinskátt um menningaruppruna og upplifun flóttakvennanna þeirra á menningarmuninum á uppruna- og dvalarlandi. Valdeflingarnálgun (empowering approach) er mikilvæg í þessu samhengi þvi hún felur í sér að félagsráðgjafinn vinnur að því að styðja flóttakonurnar í að finna leiðir og þróa eigin bjargir sem þær geta nýtt sér.

Ljóst er að stuðningur og þjónusta við flóttakonur er nauðsynlegur þáttur í aðlögunarferlinu. Bjargir þurfa að vera sýnilegar, aðgengilegar og sniðnar að þörfum þeirra ásamt því að leiða til þess að skerpa á meðvitund almennings gagnvart málaflokknum. Enda er gagnkvæm aðlögun frumskilyrði þess að hægt sé að tryggja flóttakonum og börnum þeirra eftirsóknaverð lífsskilyrði.

Sú reynsla og þekking sem áunnist hefur á meðal félagsráðgjafanna og annars starfsfólks á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, og  meðal fagfólks í grunnskólum og leikskólum barna flóttakvennanna er mikilvæg í þessu samhengi og mikilvægt að henni sé miðlað áfram á skilvirkan hátt. Því ekki mun hún eingöngu nýtast öðrum sem ætla sér að vinna með flóttamönnum heldur einnig þeim sem vinna með innflytjendum almennt.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Toshiki Toma

Sæl, Guðbjörg.
Takk fyrir síðast í Flóttamannadeginu.
Einnig takk fyrir góðu greinargerðina hér.
Ég er forvitinn um Menningarnet (Stykke 2007) sem þú nefndir.
Hvar get ég skoðað nánara um þetta?

Toshiki Toma, 21.6.2008 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband